Skandinavíska flugfélagið SAS hefur skrifað undir samning sem felur í sér pöntun á 30 Airbus A320neo vélum. Fyrir á félagið átta A321 og fjórar A319 vélar úr sömu „fjölskyldu“ eins og það er kallað. Allar þessar vélar eru framleiddar á sömu línu en í mismunandi stærðum og vísa númerin til þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Airbus en þessa dagana eru fjölmörg flugfélag að klára kaupsamninga við helstu flugvélaframleiðendur heims á flugsýningunni sem nú stendur yfir í París.

SAS hefur í nokkur ár stefnt að því að vera einungis með Airbus vélar í notkun. A320neo vélin er byggð upp með svipuðum hætti og A320 vélin, sem er mest selda vél Airbus frá upphafi. Hins vegar verður A320neo mun sparneytnari en fyrirrennari hennar og með nýjum vængjabörðum (það sem Aibus kallar sharklet) verður flugdrægni hennar lengri en áður þekkist.

SAS hefur átt viðskipti við Airbus frá árinu 1980 en í dag heyra 23 Airbus vélar undir flota félagsins. Sem fyrr segir eru 12 vélar úr A320 fjölskyldunni en þá á félagið sjö A340 vélar og fjórar A330.