Skandinavíska flugfélagið SAS áætlar nú að segja upp allt að 3.000 manns í ljósi mikils tapreksturs á síðasta ári.

Þá mun félagið ýmist selja eða selja út starfssemi sem mun hafa í för með sér flutning allt að 5.600 starfsmanna. Til að mynda er nú unnið að sölu Air Baltic sem er í eigu SAS.

Með þessu móti mun starfsfólki SAS fækka um 40%, úr 23 þúsund í 14 þúsund.

Félagið tapaði um 6,3 milljörðum sænskra króna á síðasta ári, þar af tæpum 2,8 milljörðum á fjórða ársfjórðungi, eftir að hafa hagnast um 636 milljónir sænskra króna árið 2007.

Eins og fyrr segir vinnur SAS nú að sölu eigna. Þannig hefur félagið selt spænska flugfélagið Spanair fyrir eina evru (með því fækkar starfsmönnum um 3 þúsund) en félagið segir að stærstan hluta tapsins í fyrra megi rekja til Spanair.

Þá er unnið að því að selja hluti félagsins í Spirit, Air Greenland, BMI, Estonian Airways, Skyways, Cubic og Trust en mun einbeita sér að starfssemi á Norðurlöndunum.