Breska dagblaðið Financial Times fullyrðir að samkomulag á milli ríkisstjórnar George Bush Bandaríkjaforseta og meirihluta demókrata á þinginu um stefnu í fríverslunarmálum sé í sjónmáli. Samkomulagið felur í sér þverpólitíska sátt um stefnu bandarískra stjórnvalda í utanríkisverslun það sem eftir lifir af valdatíð Bush. Það felur í sér að þingið staðfestir gerða fríverslunarsamninga við þrjú ríki í Rómönsku-Ameríku gegn því að ríkisstjórnin beiti sér með meiri hörku gegn meintum ósanngjörnum viðskiptaháttum Kínverja og Japana í milliríkjaviðskiptum við Bandaríkjamenn. Repúblikanar vonast til þess að samkomulagið verði til þess að umboð forsetans til þess að gera fríverslunarsamninga sem þingið getur aðeins staðfest eða hafnað en ekki breytt verði endurnýjað þegar það rennur út í sumar. Áframhald Doha-viðræðna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) veltur meðal annars á því hvort að umboð forsetans verði endurnýjað.

Financial Times segir að viðræðurnar séu á viðkvæmu stigi og samkomulag sé enn ekki í höfn. Gjá er á milli afstöðu repúblikana og ákveðins hóps demókrata á þingi til fríverslunar. Þeir síðarnefndu telja að aukin alþjóðavæðing viðskipta hafi meðal annars leitt til þess að staða bandarískra verkamanna og iðnaðarframleiðslu hafi veikst vegna samkeppni frá láglaunasvæðum í þriðja heiminum. Þeir kenna áherslu ríkisstjórnar á fríverslun um hinn gríðarlega viðskiptahalla sem er í Bandaríkjunum og segja hana hafa kostað Bandaríkjamenn störf og að fyrirtæki í landinu keppi ekki á jafnréttisgrundvelli við fyrirtæki í þriðja heiminum -- sérstaklega sem starfa í Kína og Indlandi. Gagnrýnendur benda á að hinn gríðarlegi halli sem er á viðskiptum við Kínverja, sem nemur rúmlega 200 milljörðum Bandaríkjadala, sé til marks um ósanngjarna viðskiptahætti stjórnvalda í Peking. Þau eru meðal annars sökuð um að styrkja stöðu útflutningsiðnaðarins í landinu með niðurgreiðslu og með því að halda gjaldmiðlinum veikum með handafli. Háværar raddir eru á þinginu um að setja verndartolla á kínverskan innflutning í refsiskyni. Ljóst er að náist samkomulag um þverpólitíska stefnu í fríverslunarmálum mun það að öllum líkindum krefjast harðari afstöðu stjórnvalda gagnvart Kínverjum á vettvangi alþjóðaviðskipta.


Á sama tíma og unnið var að brúarsmíði milli demókrata og repúblikana í fríverslunarmálum í byrjun vikunnar tilkynnti hagfræðingaráð forsetans (e. Council of Economic Advisers) árlega skýrslu sína til þingsins um stöðu hagkerfisins. Helstu niðurstöður þeirra voru að Bandaríkjamenn myndu njóta heilbrigðs hagvaxtar á árinu eða um þrjú prósent og á sama tíma myndi atvinnuleysi haldast undir fimm prósentum. Auk þess spá þeir að aukin framleiðni í hagkerfinu muni leiða til þess að laun muni hækka án þess að kynda undir verðbólgu. Spá þeirra byggist meðal annars á því að hagtölur bendi til þess að ástandið í hagkerfinu sé betra en margir héldu. Raunlaun hækkuðu hraðar en verðbólga, atvinnuleysi er lítið og neysla er enn mikil og lækkun á orkuverði frá því síðasta sumar hefur dregið úr verðbólguþrýstingi. Hagfræðingaráðið leggur til að skattalækkanir forsetans frá fyrsta kjörtímabili hans verði gerðar varanlegar og ráðleggur að skattar á fjármagnstekjur og fyrirtæki verði lækkaðir.


Í skýrslu hagfræðingaráðsins er lögð mikil áhersla á þann ávinning sem Bandaríkjamenn njóta af alþjóðavæðingu og frjálsum viðskiptum. Þátttaka Bandaríkjamanna hafi bætt lífkjör að meðaltali í Bandaríkjunum og til þess að sú þróun haldi áfram verði að tryggja að framleiðni haldi áfram að aukast. Að sögn Edward Lazear, formanns hagfræðingaráðsins, segir að engin ástæða sé til að ætla að framleiðni haldi ekki áfram að aukast í Bandaríkjunum standi grunnstoðirnar -- þátttaka í frjálsum viðskiptum og lágir skattar -- óhaggaðar. Skýrslan svaraði einnig gagnrýni um að bandaríska hagkerfið sé of háð erlendu fjármagni og bendir á að erlent fjármagn lækki kostnað á lánsfjármagni og geri Bandaríkjamönnum kleift að auka fjárfestingu án þess að þurfa auka sparnað. Hinsvegar varar hagfræðingaráðið við því að Bandaríkjamönnum stafi hætta af minnkandi áhuga erlendra fjárfesta að setja fé í hagkerfið.

Demókratar voru fljótir til að gagnrýna skýrslu hagfræðiráðsins. Charles E. Schumer, formaður efnahagsnefndar Bandaríkjaþings, sakaði hagfræðiráð forsetans um að stinga höfðinu í sandinn og sagði að laun myndu ekki hækka, viðskiptahalli minnka, sparnaður aukast og þensla velferðarkerfisins myndi stöðvast að sjálfu sér. Leiðtogar demókrata munu fá gullin tækifæri til þess að koma fram gagnrýni sinni í vikunni. Í dag og á morgun mun Ben Bernanke seðlabankastjóri sitja fyrir svörum þingsins og á föstudag mun hagfræðiráðið funda með þingmönnum. Stjórnmálaskýrendur telja að demókratar muni leggja mikla áherslu á að setja málefni alþjóðaviðskipta, sérstaklega meint vandamál varðandi framferði Kínverja, í forgrunn á þessum fundum.