Sátt í samfélaginu næst ekki nema tryggt sé að þeir sem hafi brotið af sér verði dregnir til ábyrgðar og látnir svara fyrir gjörðir sínar, sagði Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í framboðsræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta mun ekki gerast jafn hratt og við höfum flest viljað. Réttvísin tekur sinn tíma," sagði hann. Endurreisn atvinnulífsins gæti þó ekki beðið niðurstöðu dómstóla. „Við verðum að byrja strax af fullum krafti," sagði hann.

Bjarni kom víða við í ræðu sinni. Hann sagði meðal annars að á undanförnum mánuðum hefði verið hamast á flokknum í hinni pólitísku umræðu. Honum hefði þótt árásirnar yfirgengilegar og sjálfstæðismenn hefðu vart náð að bera hönd yfir höfuð. Margir sjálfstæðismenn hefðu misst móðinn.

Hann sagði að vissulega hefði margt farið úrskeiðis. Vissulega væru sjálfstæðismenn ábyrgir og þyrftu að líta í sinn eigin barm. Það hefðu sjálfstæðismenn gert á landsfundinum. Þeir hefðu beðist afsökunar á því sem aflaga fór.

Hann sagði að sagt væri að sjálfstæðismenn bæru alla ábyrgð. „Þessir atburðir gerðust þrátt fyrir stefnu okkar en ekki vegna hennar," sagði hann.

Bjarni sagði að nú væru að verða kaflaskil í íslensku samfélagi. Nýir tímar kölluðu á nýjar lausnir og nýtt fólk. „Við sjálfstæðismenn verðum að svara því kalli."

Bjarni gerði niðurstöðu landsfundar í Evrópusambandsmálinu m.a. að umtalsefni og sagði að niðurstaðan væri að sjávarútvegsstefna ESB samrýmdist ekki grundvallarhagsmunum Íslendinga. Þetta væri sín sannfæring og þess vegna hefði hann aldrei verið fylgjandi ESB. Þá sagði hann að ESB-aðild væri ekki brýnasta verkefni stjórnmálanna í dag.

Samfylkingin hefði hótað stjórnarslitum fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem halda átt í janúar yrði ESB -aðild ekki niðurstaðan. Hún hlyti því að gera ESB-aðildarviðræður að úrslitakosti í næsta stjórnarsamstarfi.

Í lok ræðunnar risu fundargestir úr sætum og hylltu Bjarna með lófaklappi.