Ríkisstjórnin undirritaði í dag samkomulag við Landsamband eldri borgara um bætt kjör eldri borgara. Meginatriði samkomulagsins sem mun taka gildi í áföngum á næstu fjórum árum fjalla meðal annars um hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga, hækkun vasapeninga, lækkun skerðingar bóta vegna maka og annara tekna bótaþega og einföldun á bótakerfinu í heild. Heildarkostnaður við samkomulagið er áætlaður 12 milljarðar króna, þar af tæpir 2 milljarðar á þessu ári. Heimaþjónusta verður einnig stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu. Þá mun fjármagn sem nú gengur til reksturs stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra ganga til uppbyggingar öldrunarstofnana. Einnig mun Landsamband eldri borgara fá sérstakan starfsmann sem vinnur að málefnum þeirra.

Ólafur Ólafsson formaður landssambands eldri borgara sem undirritaði samkomulagið fyrir hönd eldri borgara sagði á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag að mikil ánægja væri nú meðal eldri borgara um að sátt hafi náðst við ríkisstjórnina og þakkaði sérstaklega Siv Friðleifssdóttur heilbrigðisráðherra fyrir að hafa sýnt vilja til að bæta lífskjör aldraða í verki.

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirrituðu samkomulagið forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og landbúnaðarráðherra. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á blaðamannafundinum í dag að mikill áfangi hefði nú náðst í málefnum aldraða sem að hefðu dregist aftur úr í góðæri síðustu ára. Verið væri með þessum úrbótum að bæta kjör margra þeirra sem hefðu það einna verst í þjóðfélaginu.