Valitor, áður Greiðslumiðlu, hefur gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna brota félagsins á samkeppnislögum á árunum 1995-2006. Samkvæmt sáttinni greiðir Valitor 385 milljónir króna til ríkissjóðs. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós atriði í starfsemi Greiðslumiðlunar sem samræmdust ekki ákvæðum samkeppnislaga, segir í frétt frá Valitor.

Téð brot eru allt frá samningum um sölu raðgreiðslusamninga á eftirmarkaði og posaleigu til sameiginlegra límmiða á sölustöðum án þess að formleg undanþága til þess lægi fyrir eins og skylt er. Ennfremur er fallist á það að hluti af aðgerðum Greiðslumiðlunar vegna samkeppni við danska færsluhirðingarfyrirtækið Pengeinstituternes Betalings Systemer A/S (PBS) hafi ekki verið samkvæmt samkeppnislögum. PBS er fyrirtæki í eigu dönsku viðskiptabankanna og danska Seðlabankans og hefur yfirburðastöðu á markaði í Danmörku.

Höskuldur H. Ólafsson, sem tók við stöðu forstjóra Valitor fyrir rúmu ári, segir að félagið hafi fallist á sátt við Samkeppniseftirlitið og þegar hafi verið brugðist við öllum ábendingum þess varðandi það sem betur mætti fara í skipulagi og starfsemi fyrirtækisins.

„Það er ljóst að ekki var farið eftir reglum í ákveðnum tilfellum á þessum áratug sem tekinn var til rannsóknar. Rannsóknin leiðir í ljós að hvorki söluaðilar né korthafar hafa borið skaða af þessum brotum. Í kjölfarið höfum við fengið skýrar leikreglur og ábendingar frá Samkeppniseftirlitinu sem við höfum lagað okkur að," segir hann í fréttinni.

Þau brot sem Samkeppniseftirlitið gerir athugasemd við eru eftirfarandi: Brot gegn 10. grein sem fólust meðal annars í samstarfi við Kreditkort hf. og Fjölgreiðslumiðlun hf. um aðgerðir til að sporna gegn innkomu Pengeinstituternes Betalings Systemer A/S á tímabilinu 2002-2006 en einnig samskipti við Kreditkort hf. um tæknileg úrlausnarefni á umræddu tímabili.

Margar þær aðgerðir og upplýsingaskipti sem um ræðir og varða 10. gr. snérust um að auka aðgengi, skilvirkni og öryggi fyrir korthafa, en ekki var leitað tilskilinna leyfa fyrir samskiptunum eins og 15. gr. samkeppnislaga gerir ráð fyrir.

Brot gegn 11. grein fólust einkum í samkeppnishindrandi aðgerðum Greiðslumiðlunar, sem telst á tímabilinu markaðsráðandi aðili samkvæmt úrskurði, sem beindust að danska færsluhirðingarfyrirtækinu Pengeinstituternes Betalings Systemer A/S.

Með þessari sátt fellst Samkeppniseftirlitið á að málinu sé að fullu lokið gagnvart Valitor hf.