*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 25. október 2020 16:05

Sáttarbætur setja strik í reikninginn

Kjörís tapaði tæpri 41 milljón króna á síðasta ári en sáttarbætur sem félagið greiddi Emmessís vógu þar þungt.

Andrea Sigurðardóttir
Húsnæði Kjöríss í Hveragerði.
Guðrún Hulda Pálsdóttir

Kjörís tapaði tæpri 41 milljón króna á síðasta ári, en árið áður hafði félagið hagnast um tæpar 27 milljónir. Í rekstrarreikning ársins voru gjaldfærðar ríflega 27 milljónir króna vegna sáttar um lögbannsmál við Emmessís.

Velta félagsins nam tæpum 1,4 milljörðum króna og jókst um 5,4% milli ára. Rekstrarkostnaður nam sömuleiðis tæpum 1,4 milljörðum en jókst um 11,1%. Rekstrartap félagsins nam ríflega 43 milljónum. Launakostnaður félagsins jókst um 7,2% í tæpar 499 milljónir króna, en meðalfjöldi starfa á árinu var 55 ársverk og stóð í stað frá fyrra ári.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 53,7% samanborið við 58,4% árið áður. Eigið fé félagsins nam tæpum 355 milljónum króna og lækkaði um rúm 15%, á meðan skuldir jukust um 2,6% í tæpar 306 milljónir.

Arðgreiðsla til hluthafa Kjöríss vegna ársins 2019 var ákveðin 44 milljónir króna, en árið áður voru ríflega 22 milljónir greiddar í arð vegna ársins 2018. Kjörís er í meirihlutaeigu Laufeyjar S. Valdimarsdóttur og sonar hennar Valdimars Hafsteinssonar, sem jafnframt er framkvæmdastjóri ísgerðarinnar. Systur Valdimars eiga samtals 30% hlut í ísgerðinni, jafnskipt, þær Sigurbjörg Hafsteinsdóttir, kennari, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, og Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis.

Sáttarbætur vegna lögbanns

Árið 2016 gerði Kjörís kröfu um lögbann á nýjan ís Emmessís sem bar nafnið „Toppís". Byggði Kjörís kröfu sína á því að félagið hefði átt vörumerkið „Toppís" hjá Einkaleyfisstofu frá árinu 1996. Í kjölfar lögbannsins stefndi Kjörís Emmessís til staðfestingar á lögbanni og fór fram á að Emmessís fengi ekki að nota umrætt vörumerki.

Emmessís lagði hins vegar fram gagnstefnu þar sem farið var fram á að vörumerkjaskráningin yrði felld úr gildi. Emmessís vann málið í Héraðsdómi Reykjavíkur sumarið 2018 á þeim forsendum að orðið „Toppís" hafi öðlast almenna merkingu í gegnum tíðina og væri því ekki skráningarhæft.

Kjörís var í héraði gert að greiða Emmessís 1,8 milljónir króna í málskostnað en Emmessís var sýknað af öllum kröfum. Dómurinn var staðfestur í Landsrétti í maí 2019 og í Hæstarétti í lok nóvember sama árs, en Hæstiréttur felldi málskostnað niður.

Þann 18. mars síðastliðinn sömdu ísgerðirnar um sáttarbætur að fjárhæð 31,2 milljónum króna vegna lögbannsins. Kjörís hafði að fullu greitt bæturnar við undirritun ársreikningsins en stærstur hluti bótanna var gjaldfærður árið 2019.

Stikkorð: Kjörís Emmessís