Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) hafnaði í gær sáttatillögum stúdenta en námsframvindukrafa var nýverið hækkuð af stjórn LÍN. Stúdenta lögðu fram tvær sáttartillögur og önnur þeirra fólst í að námsframvindukrafa yrði 20 einingar í stað þeirra 22 eininga sem nýverið var samþykkt, en á móti yrði grunnframfærslan einungis hækkuð um 2% en ekki 3%.

Í seinni tillögunni, sem kölluð er danska leiðin, fólst að kröfur um aukna námsframvindu yrði frestað til næstu áramóta, en grunnframfærslan hækki nú þegar í samræmi við fyrra samkomulag. Báðum tillögunum var hafnað af meirihluta stjórnar LÍN. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Fulltrúar stúdenta í stjórn LÍN voru beðnir um að víkja af fundinum þegar ákvörðunin var tekin.

Stúdentar fengu þó þrjá liði sinna tillagna í gegn. Hertar námsframvindukröfur mun ekki ná til lesblindra eða öryrkja. Einnig munu þær ekki ná til þeirra sem eiga minna en 22 einingar eftir til útskriftar og eru á sinni síðustu önn. Þá verður litið til skólaársins í heild en ekki anna þ.e.a.s nái námsmaður 44 einingum í heild sinni á skólaári þá á hann rétt á námslánum í hlutfalli við árangur.