Stjórn Reykjavík Energy Invest (REI) var komin vel á veg með hugmynd sína um stofnun fjárfestingarsjóðs um útrásarverkefni Orkuveitu Reykjavíkur þegar oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Reykjavík upplýstu um hana fyrir helgi.

Fram kom í máli þeirra að þessi hugmynd væri grunnurinn að sátt um REI.

Stjórn REI hefur unnið að henni allt frá því í febrúar síðastliðnum. Hugmyndin hefur þegar verið kynnt oddvitum allra flokkanna í borginni. Þeir hafa tekið henni vel þótt ekki sé búið að samþykkja hana formlega.

Grunnhugmyndin er sú að stofnaður verði fjárfestingarsjóður um verkefni REI og þekkingu Orkuveitunnar og að fjárfestum verði boðið, á jafnræðisgrundvelli, að leggja í hann fé.

Ekki var búið að útfæra hugmyndina í smáatriðum en þó var miðað við að OR fengi hlut í sjóðnum með því að leggja honum til þekkingu. Öll sú vinna sem OR ynni í þágu sjóðsins yrði auk þess greidd af honum. Gengju fjárfestingarnar vel myndi OR hagnast á því en gengju þær illa myndi OR ekki tapa neinum peningum.

Kjartan Magnússon, Sjálfstæðisflokki, er stjórnarformaður REI, en með honum í stjórn eru Sigrún Elsa Smáradóttir frá Samfylkingu og Ásta Þorleifsdóttir frá F-lista og óháðum.