Vegna vaxandi áhuga bænda á að vinna sauðamjólk, meðal annars til ísgerðar, hefur lögum nú verið breytt þannig að framleiðsla kapla-, geita- og sauðamjólkur er nú óheimil nema starfsleyfi liggi fyrir.

Matvælastofnun óskaði eftir breytingunni

Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá Matvælastofnun sem óskaði eftir breytingunni þannig að framleiðsla sauðamjólkur er nú starfsleyfisskyld til jafns við framleiðslu kúamjólkur.

Er þessi samræming reglna á sviði mjólkurframleiðslu ætluð til að tryggja matvælaöryggi en fyrri ákvæði um sauðfjár- og hrossarækt þörfnuðust ekki sérstaks starfsleyfis enda ákvæðin um þau ekki sett með mjólkurframleiðslu í huga.

Þeir bændur sem einungis stunda hefðbundna sauðfjár- og hrossarækt án mjólkurframleiðslu eru áfram einungis tilkynningaskyldir til Matvælastofnunar en þurfa ekki sérstakt starfsleyfi.