Landssamtök sauðfjárbænda segir að íslenskir sauðfjárbændur eigi að fá meira í sinn hlut fyrir afurðir sínar og hafa þeir ekki notið nógu mikils góðs af þeirri söluaukningu sem hefur átt sér stað á íslensku lambakjöti undanfarið ár.

Kemur fram í tilkynningu frá samtökunum að afurðarverð til íslenskra sauðfjárbænda sé með því allra lægsta í Evrópu og að oft muni tugum prósenta. Fái franskir bændur t.a.m. um 60% hærra verð en þeir íslensku.

„Hærra verð til bænda í Evrópu þýðir hins vegar ekki að verð til neytenda sé nauðsynlega hærra. Bændur í Evrópu fá einfaldlega stærri hluta af útsöluverðinu til sín. Í Bretlandi fá bændur t.d. á milli 50% og 60% af endanlegu útsöluverði í sinn hlut,“ segir í tilkynningunni.

Ósanngjörn viðskipti

Þar kemur fram að íslenskir bændur fái yfirleitt sem nemur 25 til 41 prósent af endanlegu útsöluverði og þegar tekið hefur verið tillit til 11 prósenta virðisaukaskatts þýði það að milliliðir; sláturhús, kjötvinnslur og verslanir, taki á bilinu 49 til 65 prósent af endanlegu útsöluverði á lambakjöti til sín.

„Landssamtök sauðfjárbænda telja það varla geta talist sanngjörn viðskipti að milliliðir, sem sumir hverjir skila milljarða hagnaði, taki til sín svo stóran hluta af verðinu. Þetta fyrirkomulag er hvorki neytendum né bændum til hagsbóta,“ segir jafnframt í tilkynningu samtakanna.

Samtökin telja að verð til bænda sé að minnsta kosti fjórðungi of lágt og að nauðsynlegt sé að hefja leiðréttingu strax í haust. Sanngjarnari skipting framleiðsluverðmætisins milli bænda og milliliða sé höfuðforsenda þess að öflug sauðfjárrækt blómstri hér á landi.