Saudi-Arabía hefur hafið olíuvinnslu í hinum nýju Khurais olíulindum. Mun það auka olíuframleiðslugetu ríkisins í það mesta sem þar hefur nokkru sinni verið hægt að afkasta.   Khurais olíusvæðið er í austurhluta landsins og getur afkastað 1,2 milljónum tunna á dags samkvæmt frétt The Daily Star. Með því kemst olíuframleiðslan í 12,5 milljónir tunna, en Saudi Arabía er stærsti olíuframleiðandi innan samtaka OPEC ríkjanna sem framleiða nú samanlagt um 26 milljónir tunna á dag. Í júní 2008 voru OPEC ríkin að framleiða tæplega 30,3 milljónir tunna á dag.     Dagblaðið Al-Ektisadiya hefur eftir Khaled al-Faleh forstjóra Saudi Aramco olíurisans að olían sem þarna sé dælt upp sé enn sem komið er sett í tanka til geymslu og hafi enn ekki verið skipað út til útflutnings. Enda var Saudi Arabia þátttakandi í samdrætti á olíuframleiðslu OPEC ríkja í haust upp á 4,2 milljónir tunna á dag. Saudi Arabía hefur þó staðið gegn því að draga enn frekar úr framleiðslu eins og önnur ríki innan OPEC kröfðust í vetur.   Auk olíu mun Khurais olíusvæðið gefa af sér 315 milljón rúmfet af „súrgasi” og 70.000 tunnur af fljótandi jarðgasi.   Times segir frá því í dag að OPEC samtökin telji það versta yfirstaðið á olíumarkaðnum, þrátt fyrir að enn dragi úr eftirspurn.