Norðlenska matborðið birti í gær, fyrst afurðasölufyrirtækja, verðskrá fyrir sauðfjárafurðir haustið 2008.

Í megindráttum eru breytingarnar fólgnar í 15% hækkun á alla kjötflokka og greiðslur fyrir kjöt til útflutnings hækka um tæp 29%.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.

Þá segir að sauðfjárbændur hafa beðið óþreyjufullir eftir verðlistum sláturleyfishafa og ljóst að rekstrargrundvöllur margra sauðfjárbúa er brostinn við þessi tíðindi.

Blaðið greinir frá því að sauðfjárbændur höfðu gert sér vonir um hækkanir allt að 27% eins og fram kemur í viðmiðunarverði Landssamtaka sauðfjárbænda sem þau hafa heimild til að birta samkvæmt lögum.

Þá er tekið fram á vef Norðlenska að fyrirtækið áskili sér rétt til að breyta verðskránni til samræmis við verðskrá annarra stórra sláturleyfishafa. Þar segir einnig að verðhækkunum þurfi að koma út í verðlagið því rekstur Norðlenska geti ekki tekið þær allar á sig.

„Bændur þurfa að mæta miklum hækkunum á aðföngum, m.a. vegna hækkana erlendis, t.d. á áburði og olíu. Þetta eru þættir í rekstrinum sem bændur hafa engin áhrif á og verða að sækja í hærra afurðaverði,” segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands í samtali við Bændablaðið og segir að verðlistinn frá Norðlenska sé mikið áfall fyrir bændur og langt undir væntingum.