Tillaga meirihluta stjórnar Össurar um að afskrá Össur úr Kauphöll Íslands var samþykkt á aðalfundi félagsins í dag með 68,12% atkvæða. Um 28,5%.kusu gegn afskráningu. Tillaga um að fresta ákvörðun um afskráningu Össurar var áður felld með 68,14% atkvæða. Aðalfundur félagsins var haldinn í dag. Hluthafar á fundinum halda um 79,6% hlutafjár. Allir stjórnarmenn, að Þórði Magnússyni undanskildum, voru sammála um að afskrá félagið.

Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, sagði að ákvörðun um afskráningu hafi verið tekin eftir langt ákvörðunarferli. Hann sagði íslenska markaðnn ekki geta stutt við vöxt Össurar þar sem íslenska krónan er ekki samþykkt á alþjóðavísu. Þá séu gjaldeyrishöftin skaðleg. Hann sagði að viðskipti fari að stærstum hluta fram í Kaupmannahöfn og þar séu flestir hluthafar.

Þá sagð Niels Jacobsen að að afskráning úr íslensku kauphöllinni muni ekki hafa nein áhrif á íslenska hluthafa Össurar.

Jóhann G. Möller, lagði fram tillögu á aðalfundi Össurar í dag að ákvörðun um afskráningu yrði frestað, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag. Í tillögunni segir að með því megi reyna að ná sáttum milli meirihluta stjórnar og stórs hluta hluthafa félagsins.

Friðrik Nikulásson frá Lífeyrissjóði verslunarmanna ávarpaði fundinn. Hann sagði lífeyrissjóðinn styðja tillögu Jóhanns og leggst gegn afskráningu.

Niels Jacobsen svaraði þeim Jóhanni og Friðriki og skýrði að afskráning hafi verið rædd á þremur fundum á árinu 2010. Hann sagðist skilja að fyrir þjóðhagslegan hag skipti afskráningin máli. Hins vegar sé það hagur félagsins að fara úr Kauphöll Íslands.