Íslenska fjárfestingafélagið Saxbygg hefur fjárfest, ásamt fleiri fjárfestum, í norska húsaklæðningarfyrirtækinu Steni, segir í fréttatilkynningu. Ekki var gefið upp hve mikinn hlut Saxbygg hefur keypt í Steni.

Glitnir leiddi saman hóp fjárfesta, sem einnig inniheldur norska og finnska fjárfesta, og mun Saxbygg taka kjöfestuhlut í Steni. Björn Ingi Sveinsson, framkvæmdastjóri Saxbygg mun taka sæti í stjórn eignarhaldsfélagsins, sem hefur fest kaup á Steni.

Nýr eigandi Steni er er eignarhaldsfélagið Steni Holding AS, sem er í eigu stjórnenda og starfsmanna auk nýrra fjárfesta, þar á meðal Saxbygg, segir í tilkynningunni.

Kaupverðið var ekki gefið upp en áætluð velta félagsins á þessu ári er um 155 milljónir norskra króna, sem samsvarar um 1,6 milljörðum króna. Steni á dótturfélög í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Starfsmenn er um 80 talsins.

Stjórnarformaður nýja eignarhaldsfélagsins verðu Olav Kjell Holtan, en hann hefur verið stjórnarformaður rekstrarfélagsins. Steni framleiðir húsaklæðningar fyrir byggingariðnaðinn í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Frá stofnun árið 1965 hefur Steni selt yfir 25 milljón fermetra af húsaklæðningum.

Í tilkynningunni segir að Steni hefur verið hornsteinn atvinnulífs í bænum Steinsholt, suður af höfuðborginni Osló, og var í eigu Rönning-fjölskyldunnar. Forstjóri Steni, Tom Rönning, mun eiga umtalsverðan hlut í fyrirtækinu.

Aðrir eigendur eignarhaldsfélagsins eru Peptum BVBA, belgískt fjárfestingafélag undir stjórn finnsku fjárfestanna Tuomo Majander og Peder Biese. Allir eigendur félagsins tengjast byggingariðnaði sterkum böndum, segir í tilkynningu Glitnis.

Glitnir veitti kaupendum ráðgjöf og skuldsett fjármögnun bankans sá um fjármögnun yfirtökunnar.