Félagið Saxbygg ehf. vinnur nú að nýjum byggingasamningi í London en fyrir er félagið með tvö verkefni í gangi, annars vegar í Walthamstow þar sem byggðar verða 300 íbúðir og hins vegar í Boulters Lock, sem er heldur minna verkefni en þó upp á um 500 milljónir króna. Nýjasta verkefnið er við Billet Road og yrði sýnu stærst ef í það yrði ráðist. Það er einnig í Walthamstow hverfinu.

Að sögn Björns Inga Sveinssonar, framkvæmdastjóra Saxbygg ehf., er unnið að útfærslu verkefnisins við Billet Road í samvinnu við viðkomandi skipulagsyfirvöld í London og sagðist hann vera bjartsýnn á að af þessu yrði. "Það er skortur á íbúðahúsnæði í London og yfirvöld þrýsta á að byggingaframkvæmdir verði auknar," sagði Björn Ingi. Það kom einnig fram í máli hans að væntanlegir ólympíuleikar, sem verða haldnir í London árið 2012, eru þegar farnir að hafa áhrif á fasteignamarkaðinn og hafa aukið eftirspurn. Að sögn Björns Inga er gert ráð fyrir að verkefninu við Boulters Lock verði lokið í byrjun næsta árs en framkvæmdir við Billet Road gætu hafist um mitt næsta ár. Það eru Landsbankinn og Royal Bank of Scotland sem sjá um fjármögnun þessara verkefna fyrir Saxbygg.

Saxbygg ehf.  er fjárfestingarfélag í sameiginlegri eigu Saxhóls ehf og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars (BYGG) ehf.