Í dag óskaði eignarhaldsfélagið Icarus ehf. (áður Saxbygg) eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Meginstarfsemi félagsins voru fjárfestingar á fasteignamarkaði. Einnig átti félagið 5,7% hlut í Glitni sem nú er verðlaus.

Í tilkynningu kemur fram að engar skuldir eru í Icarusi ehf. aðrar en við viðskiptabanka Icarusar og það er nú í höndum væntanlegs skiptastjóra að ráðstafa þeim eignum sem til staðar eru í félaginu í þágu þessara kröfuhafa.

Saxbygg hefur verið í um helmingseigu Saxhóls (Nóatúnsfjölskyldan) og BYGG (Byggingarfélag Gylfa og Gunnars). Saxbygg hefur verið umsvifamikið á fasteignamarkaði, bæði hér heima og erlendis. Allt síðan 2006 hafði félagið staðið í miklum fjárfestingaverkefnum í Englandi og Þýskalandi sem teygðu sig til Norðurlanda.

Félagið átti einnig 66% hlut í Fasteignafélagi Íslands sem var formlega stofnað árið 2000 en sögu þess má rekja aftur til 1996 með tilkomu Smárlindarinnar. Fasteignafélag Íslands átti meðal annars Smáralind ehf. sem á og rekur verslanamiðstöðina Smáralind og Norðurturninn ehf. sem var í smíðum við Smáralindina. Þá á félagið einnig stórar lóðir sunnan megin við Smáralindina. Fyrir tæpu ári runnu eignir Fasteignafélags Íslands inn í Eik Properties þar sem Saxbygg var með 52% eignarhlut.

Sömuleiðis átti Saxbygg fimmtungshlut í Glitnir Real Estate Fund sem átti fasteignir í Noregi og Svíþjóð ásamt lóðum sem eru í þróun. Fasteignir sem eru í leigu eru um 19 þúsund fermetrar en helstu leigjendur eru m.a. norsk sjúkrahús og Volvo. Stærsti hluti fasteignanna er atvinnuhúsnæði en félagið á einnig íbúðarhúsnæði. Saxbygg Invest átti 5,7% hlut í Glitni þegar bankinn féll.