Stjórn Saxo Bank ákvað í byrjun vikunnar að gerast aðili að danska innistæðutryggingasjóðnum Det Private Beredskab.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að þessi aðild veitir tryggingu til næstu tveggja ára á öllum innistæðum viðskiptavina og almennum kröfum komi til gjaldþrota einhverra þeirra fjármálastofnana sem aðild eiga að þessu samkomulagi.

„Saxo Bank vill leggja áherslu á það að inneignir íslenskra viðskiptavina Saxo Bank eru að fullu tryggðar með aðild bankans í danska innistæðutryggingasjóðnum,“ segir í tilkynningunni.   Þá kemur fram að jákvæður vöxtur hefur verið í starfsemi Saxo Bank á árinu 2008 þar sem aðstæður á mörkuðum í ágúst og september hafa aukið tekjur bankans.   „Saxo Bank er fjárfestingabanki og er ekki háður neinni lánastarfsemi sem er augljós kostur á þessum miklu umskiptatímum,“ segir í tilkynningu bankans.

„Til þess að gerast viðskiptavinur Saxo Bank þurfa viðskiptavinir að leggja inn að minnsta kosti jafnvirði USD 10.000. Bankinn býður ekki upp á hefðbundin lán til viðskiptavina sinna. Eignir Saxo Bank eru að stærstum hluta í formi innistæða hjá seðlabönkum, skammtímaskuldabréfa og annarra ábyrgða.“