Straumur-Burðarás hefur stofnað félag sem sérhæfir sig í fjárfestingu í fasteignum með dönskum samstarfsaðilum í Danmörku. Property Group A/S heitir nýtt fjárfestingafyrirtæki fasteigna sem mun vinna að uppbyggingu fasteigna fyrir danska einkafjárfesta og stofnanafjárfesta.

Eigið fé Property Group er í upphafi 100 milljónir danskra króna og hefur félagið fjárhagslegt bolmagn til fjárfestinga fyrir a.m.k. 50 milljarða íslenskra króna á ári.

Straumur-Burðarás á 50,1%, B2B Holding ehf. (eignarhaldsfélag í eigu Birgis Þórs Bieltvedt) á 12,4% og hópur danskra stjórnenda félagsins á 37,5%.

Stjórnendur Property Group búa allir yfir mikilli reynslu á sviði fasteignaviðskipta á alþjóðavettvangi og af undirbúningi fjárfestinga í uppbyggingu fasteigna. Þeir eru Jesper Damborg, fyrrum sölustjóri danska fyrirtækisins EjendomsInvest, Henrik Mikkelsen, fyrrum fjármálastjóri hjá Keops og EjendomsInvest, Claus Klostermann, fyrrum fjárfestingastjóri hjá EjendomsInvest, Lutz Könnecker, fyrrum framkvæmdastjóri HSH Gudme í Danmörku, Michael Lexner, sjálfstæður löggiltur fasteignasali.

?Það er okkur mikil ánægja að vinna með Straumi, sem er ekki aðeins sterkur fjárhagslegur samstarfsaðili heldur býr félagið yfir mjög mikilli reynslu af fjárfestingum í fasteignum? segir Jesper Damborg, framkvæmdastjóri Property Group.

Property Group mun einkum fjárfesta í fasteignum í íbúðarhúsnæði, skrifstofum, verslunum og hótelum og í svipuðum fasteignaverkefnum í stórborgum. Fyrirtækið hefur einnig fjármuni til kaupa á eignasöfnum fyrir 1 milljarð evra eða meira eða til kaupa á öðrum fyrirtækjum á sviði fasteignafjárfestinga.

Búist er við að fyrstu skuldabréfin verði gefin út í Kauphöllinni í Danmörku jafnvel þegar á þessu ári. Property Group mun einnig einbeita sér að svokölluðum eigin-merkis uppbyggingaverkefnum fyrir stofnanafjárfesta og banka sem vilja bjóða viðskiptavinum sínum verðbréf í fyrirtækjum sem fjárfesta í fasteignum.

Hjá Property Group verður stefnan tekin á kaup eigna og að stofna til uppbyggingaverkefna. Dagleg stjórn fjárfestingasafnsins verður boðin út til verktaka.