Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, minnti á það í ráðstefnu í Frankfurt í dag að aðild Grikkja að evrunni væri ekki „rituð í stein“ auk þess sem hann hét því að nýta Grikklandskrísuna til að stokka upp í myntsamstarfinu. Þetta kemur fram í frétt Financial Times um málið.

Þá sagðist hann vera ánægður með Evklíð Tsakalotos, nýjan fjármálaráðherra Grikklands, vegna „hefðbundnari aðferðafræði“ hans til að leysa vanda grikkja en forveri hans í starfi, Yannis Varoufakis, sýndi. Sagði hann að besta leiðin til að Grikkland nái trausti annarra ríkja innan Evrusvæðisins væri að skila samstundis inn tillögum að úrbótum, jafnvel áður en samningar næðust við lánardrottna.

„Gerið það bara,“ sagði hann. „Það myndi ávinna ykkur ótrúlega miklu trausti.“

Greint var frá því fyrr í dag að frekari fyrirgreiðslur verða ekki í boði ef grísk stjórnvöld verða ekki búin að skila inn raunhæfum tillögum að úrbótum í grísku efnahagslífi á miðnætti. Mikið mæðir á ríkisstjórn Alexis Tsipras og Evklíð Tsakalotos, sem vinna nú að því að setja saman tillögur sem geta bæði þóknast lánardrottnum í Evrópu, auk grísku þjóðinni.