Norska fjölmiðlasamstæðan Schibsted hefur tryggt sér kaupréttinn að 19,7% hlut Kaupþings í norska dagblaðinu Stavanger Aftenbladet og mun greiða íslenska bankanum 333 milljónir norskra króna, sem samsvarar um 3,6 milljörðum íslenskra króna, fyrir hlutinn. Trond Berger, fjármálastjóri Schibsted, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Ekki er vitað hvort að Kaupþing hýsi hlutinn í Stavanger Aftenbladet fyrir þriðja aðila.

Í kjölfar kaupanna á hlut Kaupþings í Stavanger Aftenbladet mun hlutur Schibsted aukast í 52% úr 32,3%. Samkvæmt reglum um yfirtökur í Noregi verður Schibsted að gera öðrum hluthöfum norska dagblaðsins yfirtökutilboð ef félagið hyggst nýta kaupréttinn.

Schibsted áætlar að sameina norsku dagblöðin Aftenposten, Bergens Tidende, Fæderlandsvennen og Stavanger Aftenbladet í eignarhaldsfélaginu Media Norge. Schibsted greindi frá því í síðustu viku að áætlað er að skrá Media Norge í norsku kauphöllina í lok ársins 2007, en félagið mun eiga 50,1% hlut í eignarhaldsfélaginu.

Dagblöð í eigu Schibsted eru nú með 34,1% markaðshlutdeild á norska dagblaðamarkaðnum, samkvæmt upplýsingum frá norska upplagseftirlitinu, en markaðshlutdeild eins aðila má ekki fara yfir 33,3%. Sérfræðingar á norskum dagblaðamarkaði benda á að sterk staða Schibsted á markaðnum muni hafa áhrif á stofnun Media Norge.

Berger segir að Schibsted muni gera ráðstafanir og líklega selja eignir til að draga úr markaðshlutdeildinni og þar með gera félaginu kleift að stofna og skrá Media Norge. Einn möguleiki er að selja 34,4% hlut félagsins í blaðinu Adresseavisen. Berger segir þó að ákvörðun hafi ekki verið tekin að svo stöddu.

Hagnaður Schibsted jókst gífurlega á fjórða ársfjórðungi á síðsta ári og nam 1,72 milljörðum norskra króna (18,7 milljörðum íslenskra króna), samanborið við 160 milljónir norskra króna á sama tíma árið 2005. Ástæðan er sala félagsins á eignarhlutum í norsku sjónvarpstöðinni TV2 og sænsku sjónvarpsstöðinni TV4. Söluverðmæti hlutanna nam 1,5 milljörðum norskra króna.