Bandaríski fjárfestirinn og álitsgjafinn Peter Schiff segir íslensku jafnlaunavottunina vanhugsaða. Þetta segir hann í færslu á Facebook-síðu sinni .

Schiff, sem er stofnandi, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Euro Pacific Capital Inc., er meðal annars þekktur fyrir að hafa spáð fyrir um hrun fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum sem og fjármálakreppuna árið 2008. Hefur Schiff gefið út fjölda bóka um efnahagsmál og fjárfestingar.

Alþingi samþykkti síðastliðið sumar lög um jafnlaunavottun og tóku lögin gildi nú um áramótin. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Þurfa fyrirtæki á Íslandi með fleiri en 25 starfsmenn að geta sýnt fram á að konur og karlar fái sömu launin fyrir sömu vinnu meðfram útgáfu ársreikninga samkvæmt lögunum.

Í færslu sinni segir Schiff að jafnlaunavottunin muni leiða af sér margar neikvæðar, ótilætlaðar afleiðingar:

  1. Mörg fyrirtæki munu sjá til þess að ráða ekki fleiri en 25 manns í vinnu eða segja upp starfsfólki til að ná undir viðmiðið
  2. Fyrirtæki munu takmarka þann fjölda kvenna sem ráðinn er í vinnu
  3. Konur sem ráðnar eru í vinnu munu ekki lengur hafa tækifæri til að velja á milli sveigjanlegs vinnutíma eða að vinna að heiman annars vegar og lægri launa hins vegar
  4. Meðallaun munu lækka fyrir bæði karla og konur
  5. Jafnlaunavottunin dregur úr framleiðni hagkerfisins, þar sem vinnuveitendur eru neyddir til að sóa fjármunum til fara eftir lögunum, eða endurskipuleggja reksturinn til að draga úr fylgiskostnaði jafnlaunavottunarinnar

Áður hefur komið fram að félagar í Félagi atvinnurekenda telji að lögbundin jafnlaunavottun geti stuðlað að launajafnrétti, en að kostnaðurinn geti verið mikill. Samtök atvinnulífsins hafa einnig lagst gegn jafnlaunavottun.