Scrum er aðferð við verkefnastjórnun sem á rætur sínar að rekja til hugbúnaðargeirans. Undanfarið hefur þessi vinnuaðferð notið aukinna vinsælda hérlendis og hefur hún teygt sig langt út fyrir hugbúnaðargeirann. Scrum byggir á stuttum vinnulotum með daglegum stöðufundum. Scrum-aðferðin er ólík hefðbundinni verkefnastjórnun þar sem unnið er innan ákveðins tímaramma, gæðaramma eða kostnaðarramma. Eðvald Möller segir scrum-aðferðina leggja áherslu á verkefnastýringu og mikilvægi þess að virkja og veita einstaklingum vald til að bregðast við breytingum.

Þrjú einföld skref

Scrum er skipt upp í þrjú skref, forgreiningu, þróunarferli og lokaferli. Áætlunargerð felur í sér skilgreiningu á því sem á að þróa og er útbúinn listi með kröfum um endanlega afurð. Eðvald segir mikilvægt að listinn sé lifandi allt ferlið og hann innihaldi teymið, búnaðinn, áhættumatið og aðrar nánari praktískar upplýsingar. „Í þróunarferlinu má búast við hinu óvænta. Utanaðkomandi og tæknilegir þættir eins og gæði, þarfir, auðlindir og fleira, sem geta breyst í ferlinu eru sannreyndir og þeim stjórnað á meðan á spretti stendur í scrum,“ segir Eðvald.

Sprettir

Verkefnum er skipt niður í spretti og er hver sprettur oftast tvær til fjórar vikur og fer fjöldi spretta eftir umfangi verkefnis. „Samkvæmt scrum er aðeins unnið að einum spretti í einu og er sprettunum forgangsraðað eftir kröfum og þörfum viðskiptavinarins þannig að þau verk sem eru nauðsynleg eða mikilvæg eru kláruð fyrst. Að loknum hverjumspretti skilar hópurinn frá sér fullmótuðum hluta verkefnis,“ segir Eðvald. Afurðin sem teymið hefur skilað af sér er metinn á fundi sem er byggður upp líkt og daglegu fundirnir. „Á fundinum er tekin afstaðatil afurðar, hvort hún sé nýtanleg eður ei. Ef villur koma upp í virkni eru þær skráðar og lagfærðar. Í lokaferlinu er svo afurðin tilbúin til úthlutunar ef samkomulag hefur náðst um að allar kröfur séu uppfylltar.“

Hentar vel á Íslandi

Eðvald telur að scrum-aðferðafræðin geti hentað íslenskum fyrirtækjum betur en hefðbundin verkefnastjórnun en hvert og eitt fyrirtæki þarf þó að finna sinn farveg. Hann varar þó við áhættunni sem fylgir kostnaðarhlið verkefnisins. „Árangur verkefnis snýr að því hvort menn hafi einbeitt sér að virðisaukningu og hvort verkefnið skili virðisaukningunni til lengri tíma litið. Hins vegar snýst mat á árangri verkefnastjórans frekar um það hvort hann er að ná fram markmiðum um kostnað, tíma og gæði og uppfylla stefnu fyrirtækis. Áhættan liggur oftast í stjórnlausum kostnaði við verkefni