Vogunarsjóðurinn Sculptor Capital Management var sá sem seldi um 40 milljón hluta í Arion banka í gær fyrir um 3,7 milljarða króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær voru 70% allra viðskipta á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar sem fram komu við lok viðskipta í gær með bréf Arion banka, en þar af vóg mest ein sala erlends hluthafa á genginu 94 krónur hvert bréf.

Samkvæmt tilkynningu í Kauphöllinni sem dagsett var í gær þá hefur Sculptor Capital Management, áður Och-Ziff Capital Management Group, selt tæplega 106 milljón hluta, eða sem samsvarar 6,1% hlutafjár í Arion banka, en það miðast við sölu félagsins síðustu mánuði.

Samkvæmt hluthafalista Arion banka í gær kom fram að Sculptor ætti 6,12% í bankanum en nú í nýjustu uppfærslu hluthafalista Arion banka er hlutfallið komið niður í 3,81%. Munurinn samsvarar 2,31% hlutafjár eða um 40 milljón bréfum. Ef við miðum við að þessi 6,1% bréfa í bankanum hafi öll verið seld á 94 krónum líkt og salan í gær, þá nam söluverðmætið ríflega 9,9 milljörðum króna.

Ef miðað er við lokagengi Arion banka í gær, 95,10 krónur, er fjárhæðin nokkru hærri, eða ríflega 10 milljarðar króna, en eftir hækkun í dag upp í 95,40 er verðmæti þessara bréfa komið í tæplega 10,1 milljarð króna.

Voru eigendur í þrotabúi Kaupþings

Sculptor Capital Management hét áður Och-Ziff Capital Management Group er einn vogunarsjóðanna sem áður áttu þrotabú gamla Kaupþing, en félagið er með um 400 starfsmenn í New York, London, Hong Kong, Mumbai og Sjænghæ. Í september 2019 var félagið með 33,3 milljarða dala í stýringu.

Um miðjan mars 2018 sagði Viðskiptablaðið frá því að félagið hyggðist loka sjóðum sínum í Evrópu, en þá var ekki ljóst hvort það hefði áhrif á eignarhlut félagsins í Arion banka.

Viðskiptablaðið sagði frá því sumarið 2018 þegar Kaupþing hóf frumútboð á fjórðungshlut í Arion banka. Áður höfðu vogunarsjóðir sem áttu Kaupþing keypt hlut í Arion banka af þrotabúinu. Félagið var stofnað árið 1994 af Daniel Och, með stuðningi Ziff fjölskyldunnar, en Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir ári þegar hann keypti eina dýrustu íbúð sögunnar.

Fleiri fréttir um málefni Arion banka og vogunarsjóðanna sem átt hafa í bankanum: