Skiptastjóri þrotabús BGE Eignarhaldsfélags hefur samið við flesta fyrrverandi starfsmenn Baugs Group sem fengu lán til kaupa á hlutabréfum í félaginu. BGE Eignarhaldsfélag var stofnað í nóvember árið 2003 utan um eignarhald starfsmanna Baugs á hlutabréfum í Baugi og lánaði það starfsfólki fyrir hlutabréfakaupunum.

Ástráður Haraldsson. hrl.
Ástráður Haraldsson. hrl.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Hæstaréttarlögmaðurinn Ástráður Haraldsson tók við þrotabúi BGE Eignarhaldsfélags í vor og hefur hann unnið að innheimtu krafna sem félagið taldi sig eiga á hendur fyrrverandi starfsmönnum Baugs. Deilt hefur verið um uppgjör vegna lána sem starfsmennirnir tóku til kaupa á hlutabréfunum. Hann segir í samtali við vb.is búið að semja við flesta. Eftir standi tvö til þrjú mál sem þurfi að láta reyna á fyrir dómi.

Veð fyrir lánum starfsmanna Baugs Group voru bréfin sjálf. Ábyrgð einstaklinga á kaupunum var umdeild, þ.e. hvert umfang persónulegrar ábyrgðar var.

Í málum sem tengjast lánveitingum Kaupþings til fyrrverandi stjórnenda bankans voru starfsmenn bankans persónulega ábyrgir fyrir 10% af lánsfjárhæðinni. Algengt var í svipuðum málum að félag sem lánað starfsfólki til hlutabréfakaupa, hefði rétt til að kaupa til baka 90% af bréfum hluthafa. Það sem út af stóð, 10% af heildarfjárhæðinni, voru starfsmenn persónulega ábyrgir fyrir.

Ástráður segir að í flestum tilvikum hafi verið samið um þá niðurstöðu en vill ekki fara nánar út í hvað í henni felst.

Fjórir skulduðu rúman milljarð

Skiptastjóri BGE Eignarhaldsfélags hefur unnið að því í a.m.k. tvö ár að fyrrverandi starfsfólk Baugs greiði skuldir sínar en um 40 starfsmenn Baugs gerðu samninga um lán til hlutabréfakaupa.

Stærstu skuldararnir voru fimmtán. Fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins fyrir tveimur árum að Jón Ásgeir Jóhannesson (fv. aðaleigandi), Gunnar Sigurðsson (fv. forstjóri), Stefán Hilmarsson (fv. aðstoðarforstjóri) og Skarphéðinn Berg Steinarsson (fv. framkvæmdastjóri) hafi á þeim tíma átt langstærstan hlut heildarupphæðarinnar, rúmlega einn milljarð króna.

Viðskiptablaðið greindi jafnframt frá því á sínum tíma að að Kaupþing lánaði Baugi gegn veði í hlutabréfum félagsins og Baugur lánaði féð síðan áfram til starfsmanna Baugs.

Í uppgjöri BGE Eignarhaldsfélags fyrir árið 2008 kemur fram að lán til starfsmanna BGE Eignarhaldsfélags námu 577 milljónum króna. Allar eignir BGE Eignarhaldsfélags urðu verðlausar þegar að Baugur fór í þrot vorið 2009.

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
© BIG (VB MYND/BIG)

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri og aðaleigandi Baugs.