Sem barn var Fura Ösp Jóhannesdóttir öll sumur í sveit hjá ömmu sinni og afa í Skálholtsvík í Hrútafirði og þá ætlaði hún sér að verða bóndi eða dýralæknir. Í dag er hún hins vegar viðmótshönnuður og býr í New York þar sem hún stýrir yfir hundrað manna teymi hjá gagnvirku auglýsingastofunni R/GA.

Margir horfa til New York þegar þeir velta fyrir sér námi í grafískri hönnun eða starfi á auglýsingastofu og Fura segir möguleikana mikla fyrir fólk sem er tilbúið að spreyta sig. „Það eru margar leiðir inn í borgina fyrir þá sem vilja búa hérna. Ég hugsa að nám sé oftast auðveldasta leiðin því það getur komið þér inn í kerfið. Að námiloknu fær fólk atvinnuleyfi í ár sem gefur því tækifæri til að sanna sig. Eftir það getur fólk sótt um atvinnuleyfi. Önnur leið er hreinlega að sækja um vinnu hjá fyrirtækjum í New York. Ég held að fólk mikli þetta stundum fyrir sér en þetta þarf ekki að vera svo mikið mál. Við höfum til dæmis ráðið fullt af fólki til vinnu frá löndum í bæði Evrópu og Asíu, allt frá lærlingum og upp í hærri stöður. Fyrirtæki í New York eru alltaf að leita eftir góðu fólki og það skiptir ekki máli hvaðan það kemur heldur hvað það hefur fram að færa. Þetta snýst bara um það að taka áhættu og láta hlutina gerast,“ segir Fura.

Hún segir erfitt að útskýra hina miklu orku sem er í New York og mörgum er tíðrætt um sem heimsækja borgina. „Það er stundum einhver undarleg bjartsýni í borginni. Fólki finnst eins og allt sé mögulegt. Það er ekki mikið af samfélagsreglum og það er kannski vegna þess að hér koma saman svo margir menningarheimar. Fólk fer sínar eigin leiðir og það er lítið um fordóma fyrir því sem náunginn gerir. Fólk í New York tekur áhættu, lifir lífinu eins og það langar helst til og það smitast út í andrúmsloftið. Að anda þessu að sér daglega eru forréttindi og hefur svo sannarlega breytt mér og mínum viðhorfum til lífsins og náungans.“

Fura Ösp Jóhannesdóttir er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu í dag. Í blaðinu segir Fura frá því hvernig það er að vinna á stórri auglýsingastofu í New York og hvernig hún komst á þann stað sem hún er í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.