Með tveimur aðskildum bréfum í júní var Samkeppniseftirlitinu (SE) tilkynnt um samruna Línuhönnunar og Verkfræðistofu Suðurlands annars vegar og samruna Línuhönnunar, Verkfræðistofunnar Afls og Raftæknistofunnar hins vegar.

Á vef Samkeppniseftirlitsins kemur fram að eftirlitið metur það sem svo að kaupin feli í sér samruna í skilningi samkeppnislaga og fellur samruninn undir samrunaeftirlit laganna þar sem veltuskilyrði ákvæðisins eru uppfyllt.

„Athuganir Samkeppniseftirlitsins gefa hins vegar ekki til kynna að samruninn muni raska samkeppni. Í ljósi þessa er það mat eftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar vegna samrunans á grundvelli samkeppnislaga,“ segir á vef SE um bæði tilvikin.