Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni í dag heimilað yfirtöku Seðlabanka Íslands á Fjölgreiðslumiðlun hf. (nú Greiðsluveitunni hf.)

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu en Fjölgreiðslumiðlun var áður í eigu flestra viðskiptabanka og sparisjóða landsins auk Valitors hf., Borgunar hf. og Seðlabanka Íslands.

Fram kemur að Kaup Seðlabanka Íslands á öllu hlutafé fyrri meðeigenda fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga. Eftir breytingar heitir félagið Greiðsluveitan hf.

„Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að yfirtakan muni í aðalatriðum hafa jákvæð samkeppnisleg áhrif á markaði fyrir greiðslumiðlun og greiðslujöfnun á Íslandi, en Greiðsluveitan mun m.a. reka kerfi sem annast jöfnun greiðslufyrirmæla og rafræna greiðslurás fyrir notkun greiðslukorta á Íslandi (RÁS-kerfið),“ segir í tilkynningunni.

„Fyrir liggur að þessi starfsemi er mjög mikilvæg og nauðsynleg fyrir almenna fjármálastarfsemi og verður því að tryggja að allir rekstraraðilar, bæði núverandi og nýir, geti tengst þessum kerfum og notið þjónustu þeirra. Verður sá aðgangur að vera gagnsær og að öllu leyti á grundvelli jafnræðis og málefnalegra forsendna og skilyrða.“

Sjá nánar á vef Samkeppniseftirlitsins.