Sean Parker, einn af þeim fyrstu sem fjárfestu í Facebook segist orðinn leiður á samfélagsmiðlum.

Parker er með þekktari fjárfestum Bandaríkjanna. Hann stofnaði skráskiptiforritið Napster með æskuvini sínum Shawn Fanning árið 1999 Samkvæmt því sem fram kemur um æviferil Parkers rak hann augun í forvera Facebook í tölvu kærustu sinnar sem var við nám í Stanford-háskóla í Bandaríkjunum árið 2004 og komst hann í kjölfarið í kynni við Mark Zuckerberg.  Hann hefur sömuleiðis komið nálægt fjölda tækninýjunga og situr í stjórnun nokkurra, s.s. Spotify.

Skemmst er að minnast að Justin Timberlake lék hann í kvikmyndinni The Social Network sem sýnd var í kvikmyndahúsum fyrir tveimur árum.

Vinnur enn með stofnanda Napster

Eins og Bloomberg greinir frá er ástæða fyrir því að Sean Parker hefur lýst því yfir að honum finnist Facebook leiðinlegt fyrirbæri. Sú helsta er sú að hann kynnti í gær nýjasta netfyrirtækið. Það heitir Airtime Media, heldur utan um skráskiptibúnaðinn Airtime og gerir netverjum kleift að eiga í samskiptum í rauntíma í mynd og deila skrám á milli sín.

Parker stofnaði fyrirtækið utan um tæknina með Shawn Fanning í fyrra og mun Napster-strákurinn verma forstjórastólinn hjá Airtime. Parker hefur ekki fullkomlega skilið við Facebook því Airtime er tengst í gegnum Facebook og Twitter.

Parker og Fanning eru ekki einu stjörnurnar sem prýða Airtime því leikarinn Ashton Kutcher er á meðal þeirra sem fjárfesta í fyrirtækinu.

Airtime var kynnt með pompi og prakt í New York í gær en á meðal þeirra sem sátu kynninguna voru rapparinn Snoop Dog, Jim Carrey og söngkonan Alicia Keyes.