SeaWorld tilkynnti í dag að hann ætlaði að hætta ræktun á háhyrningum á þessu ári. New York Times greinir frá.

Forstjóri SeaWorld, Joel Manby, sagði að garðurinn þyrfti að aðlaga sig að breyttri afstöðu gagnvart dýrunum. Gagnrýni á garðinn hefur aukist verulega á síðustu árum eftir að bókin Death at SeaWorld: Shamu and the Dark Side of Killer Whales in Captivity kom úr árið 2012 og heimildarmyndin Blackfish árið 2013.

Garðurinn segir að núverandi kynslóð háhyrninga verði sú síðasta innan garðsins en ekki verður gerð tilraun til að sleppa dýrunum í náttúruna. Manby segir að mikill meirihluti dýranna hafi fæðst í garðinum og ef að þeim verði sleppt þá muni þau líklega látast úr hungri. Hann tekur sérstaklega dæmi af íslenska háhyrningnum Keikó, sem fæddist villtur, en ekki náðist að venja hann aftur við náttúruna.