SEB banki í Svíþjóð hefur tekið í notkun PeTra regluvörslukerfi frá Applicon, dótturfélagi Nýherja. Kerfinu er ætlað að tryggja verklag og eftirlit með verðbréfaviðskiptum bankastarfsmanna og opinberra starfsmanna.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að notendur PeTra séu nú um 10 þúsund talsins.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að SEB hafi um árabil verið leiðandi á sænskum markaði í sjálfvirku eftirliti með verðbréfaviðskiptum starfsmanna sinna. SEB banki er meðal stærstu banka á Norðulöndunum, hjá honum starfa um 17.000 starfsmenn í yfir 20 löndum.

PeTra-kerfið er í rekstur hjá mörgum af stærstu bönkum Norðurlanda. Þar á meðal er Nordea, Öhman, Carnegie og nú SEB. Stefnt er að því að bjóða lausnina til fyrirtækja á Íslandi á þessu ári.

Haft er eftir Guðjóni Karli Þórissyni, sölu- og markaðsstjóra Applicon á Íslandi, að reynsla SEB í sjálfvirku eftirliti með verðbréfaviðskiptum styrkir vöru fyrirtækisins.

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Hjá fyrirtækinu starfa um 170 manns á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð.