Sérfræðingar SEB mæla með kaupum á Össuri í nýju verðmati sem þeir gáfu út í kjölfar árshlutauppgjörs stoðtækjarisans. Hækka þeir fyrra markgengi um tæp 17% eða úr 9 dönskum krónum á hlut í 10,5 DKK. Þetta jafngildir því að markgengi Össurar sé rétt um 225 krónur á hlut. Fram kemur í greiningu SEB að uppgjör Össurar á fyrsta ársfjórðungi hafi verið langt fyrir ofan væntingar bankans sem rekja má til hærri sölutekna og strangs kostnaðaraðhalds. SEB hefur hækkað spá sína fyrir hagnað á hlut um 9% fyrir 2010 en lækkað spár fyrir árin 2011 og 2012 sökum veikingar evrunnar. Sérfræðingar SEB reikna með miklum innri vexti á öðrum ársfjórðungi og byggja væntingar sínar á því að félagið hafi sýnt 5% innri vöxt á fyrsta ársfjórðungi þrátt fyrir að stoðtækjaframleiðslan hafi glímt við vandamál með aðföng frá mikilvægum birgja sem hafa verið leyst. Þá er bent á að miðað við uppfærslu stjórnenda Össurar á upphaflegri áætlun um EBITDA-hagnað fyrir árið 2010 sé fyrirtækið nú þegar komið fram úr nýju spánni. Sérfræðingar á vegum SEB reikna með að stjórnendur Össurar komi til með að hækka þær áætlanir enn frekar.