Sérfræðingar sænska bankans SEB telja að til skemmri tíma muni verða þrýstingur á söluhliðinni á íslensku krónunni eftir að hún verður látin fljóta á ný. Þetta kemur fram í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar. Hinsvegar telja þeir að allar líkar séu á því að hún verði styrkingarfasa á næsta ári þar sem að bankinn spáir því að viðskiptajöfnuður verði hagstæður.

Sérfræðingar sænska bankans benda á að neyðaraðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins auk gjaldeyrisskiptasamninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við hin Norðurlöndin muni auka gjaldeyrisvarasjóðinn um milljarða Bandaríkjadala. Ennfremur munu 2,5 milljarðar dala bætast við sjóðinn á næsta ári að sögn SEB en sú upphæð mun koma í formi fleiri lánalína frá Norðurlöndum.