Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur gert samning um kaup á hlutafé í fyrirtækinu 3Z.ehf. Fyrirtækið hefur það að markmiði að markaðssetja aðferð þar sem sebrafiskar eru notaðir til skimunar á sameindum sem hafa áhrif á miðtaugakerfið og stunda þannig skipulega leit að miðtaugakerfislyfjum framtíðarinnar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem fjárfestir í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þar sem vænta má mikils virðisauka og arðsemi af starfsemi. Karl Ægir Karlsson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi 3Z segir aðkomu sjóðsins mikilvæga og þannig fáist bæði það fjármagn sem þurfi til að sækja fram á markaði og aðgangur að mikilli þekkingu á sprotaumhverfinu.

Aðferðir 3Z byggja á rannsóknum sem fram hafa farið við Háskólann í Reykjavík. Háskólinn hefur enn fremur stutt við uppbyggingu fyrirtækisins 3Z með margvíslegum hætti og hefur fyrirtækið rannsóknaraðstöðu í háskólanum. Einnig hlaut 3Z mikilvægan styrk frá Tækniþróunarsjóði við upphaf starfseminnar, sem gerði frumþróun aðferða og ferla mögulega. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja þær hræringar sem hafi verið á lyfjaþróunarmarkaði vera fyrirtækinu í hag. Aðferðir fyrirtækisins séu ódýrari, hraðvirkari og mannúðlegri en þær sem mest eru notaðar í dag. 3Z stefnir á að bjóða skimunarþjónustu til fyrirtækja í lyfjaþróun.