Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna sendi Tesla skilaboð í fyrra um að framkvæmdastjóri og stofnandi félagsins, Elon Musk, hefði í tvígang brotið skilmála samkomulags við eftirlitið frá 2018 sem fól í sér að lögfræðingar félagsins yfirfæru öll tíst Musk áður en þau yrðu birt.

Sagt var frá þessu nú í vikunni , en tístin sem um ræðir vörðuðu hlutabréfaverð félagsins og framleiðslu sólarselluþaks. Hvorugt var yfirfarið af lögfræðingum félagsins eins og samkomulagið mælti fyrir um.

Í hinu fyrrnefnda í maí í fyrra sagði Musk að hlutabréfaverðið væri „of hátt að mínu mati“. Bréfin féllu í kjölfarið um allt að 12% innan dags, og kláruðu daginn rúmlega 10% lægri en við upphaf viðskipta.

Í hinu síðarnefnda svaraði Musk spurningu á Twitter um hvernig framleiðsla sólarrafhlaðna félagsins gengi með því að vonast væri til að hún myndi nema þúsund heilum þökum á viku fyrir árslok. Við opnun markaða í kjölfarið hækkuðu bréfin um 3%.