Ágreiningi skiptastjóra þrotabús Fons og nýja Landsbankans um eignarhald á Securitas verður skotið til dómstóla væntanlega í næstu viku. Óskar Sigurðsson skiptastjóri gerir ekki ráð fyrir því að það tefji söluferli Securitas.

Stefnt er að því að það geti hafist fljótlega. Securitas er ein helsta eign þrotabúsins.

Ágreiningur skiptastjórans og Landsbankans snýst um að bankinn telur sig eiga 99,7% veð í Securitas í ljósi lánasamnings þar sem Fons veðsetti hlutinn.

Skiptastjórinn telur hins vegar að það hafi ekki fundist nein gögn sem sýni fram á samþykki stjórnar Securitas fyrir veðsetninginni en slíks samnings er krafist í samþykktum félagsins og í hlutafélagalögum.

Aðrir kröfuhafar en nýi Landsbankinn eiga mikið undir því að fallist verði á sjónarmið skiptastjórans en auk Landsbankans er Glitnir einn helsti kröfuhafinn. Í kröfuhafahópnum eru líka Kaupþing og Kaupþing í Lúxemborg.

Fons var formlega tekið til gjaldþrotaskipta hinn 30. apríl sl. í Héraðsdómi Reykjavíkur.

7 milljarða krafa frá Stoðum barst of seint

Heildarlýstar kröfur í þrotabúið námu 39 milljörðum króna. Þar af er 7 milljarða króna krafa frá Stoðum sem hefur verið hafnað því hún barst of seint. Þá vantar frekari gögn og útskýringar með stórum hluta krafna en kröfuhafar hafa fengið frest til að leggja þau fram.

Glitnir er stærsti kröfuhafinn og nema kröfur hans ríflega 23 milljörðum. Þar af hefur 11 milljarða kröfu verið hafnað að svo stöddu í ljósi þess að frekari gögn vantar. Glitnir hefur þó fengið frest til að afla þeirra.

Gamli Landsbankinn er með kröfur upp á um 800 milljónir og Nýi Landsbankinn, NBI, er með kröfur upp á um 4,7 milljarða. Hann lítur svo á, sem fyrr sagði, að þær séu með meðal annars með veð í Securitas.