Frá og með 1. mars næstkomandi mun Securitas sinna Vegaaðstoð sem viðskiptavinum Sjóvá í Stofni stendur til boða, þeim að kostnaðarlausu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Vegaaðstoð hefur staðið viðskiptavinum í Stofni til boða endurgjaldslaust frá 2007. Hingað til hefur FÍB Aðstoð séð um að veita þjónustuna en eftir að tilboð barst frá Securitas síðastliðið sumar hófust viðræður milli félaganna sem enduðu með samkomulagi. Um næstu mánaðamót mun Securitas alfarið taka við að veita Vegaaðstoð Sjóvá.

Viðskiptavinir í Stofni geta fengið aðstoð ef bílar þeirra verða straum- eða bensínlausir, dekk springur eða aðstoðar er þörf við útfyllingu tjónaskýrslu. Vegaaðstoðin er í boði allan sólarhringinn, alla daga ársins, á höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesi, Akureyri og nærsveitum og Selfossi og svæðinu í kring.

Jóhann Þórsson, Markaðsstjóri Sjóvá:

„Við hlökkum til að geta aukið þjónustu við okkar viðskiptavini. Sólarhringsvakt Securitas og snöggur viðbragðstími mun auka við þá hugarró sem viðskiptavinir okkar búa við. Viðskiptavinir í Stofni njóta ýmissa kjara, meðal annars afsláttar af barnabílstólum hjá samstarfsaðilum okkar. Það er ánægjulegt að geta nú boðið upp á Vegaaðstoð með Securitas, sem fólk þekkir af traustri og snöggri þjónustu.“

Securitas  er stærsta þjónustufyrirtæki í öryggismálum á landinu. Securitas býr yfir stórum flota öryggis- og viðbragðsbíla um allt land sem munu sinna þjónustunni. Auk þess að vera með höfuðstöðvar í Reykjavík, þá eru útibú á Akureyri, Reykjanesi, Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi og vaktbílar á ferli allan sólarhringinn um land allt.

Baldur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Gæslusviðs Securitas:

„Við hjá Securitas erum stolt af því að Sjóvá hafi valið okkur til að sinna jafn mikilvægum þjónustuþætti og Vegaaðstoðin er í þeirra þjónustuframboði. Við bjóðum nú þegar upp á framúrskarandi þjónustu á vettvangi þar sem viðbragðið er mikilvægasti þátturinn. Af þeim sökum fellur þjónustugeta okkar vel að kröfum Sjóvá hvað varðar fagmennsku og viðbragð við þjónustu á vettvangi.“