Sú breyting á lögum um gjaldeyrismál sem lögð er til í frumvarpi Fjármálaráðherra, sem valdið hefur þeirri gríðarlegu hækkun á ávöxtunarkröfu skuldabréfa er breyting á 3. málsgrein 13. greinar b. í lögunum. Þar er nú grein sem felur í sér að undanþegnar frá banni við flæði fjármagns milli landa í krónum séu fjármagnshreyfingar vegna viðskipta með fjármálagerninga sem Seðlabanki Íslands metur gilda í tryggingar í viðskiptum við bankann, svokölluð „repo-hæf“ bréf. Í frumvarpi Fjármálaráðherra er þessi undanþága tekin út.

Miðlarar og sjóðstjórar hafa sagt við vb.is að skilningur manna sé sá að með breytingunni sé í raun verið að banna aflandskrónueigendum að fjárfesta í slíkum skuldabréfum. Þótt hækkunin hafi verið mest á ávöxtunarkröfu stystu skuldabréfaflokkanna hafa lengri flokkarnir hækkað töluvert líka. Krafa á ríkisskuldabréf á gjalddaga árið 2022 hefur hækkað um 0,46 prósentustig og krafa á bréf á gjalddaga árið 2031 hefur hækkað um 0,20 prósentustig.

Arnar Guðmundsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir hins vegar í samtali við vb.is að engar efnisbreytingar séu í frumvarpinu sem eigi að réttlæta einhverja örvæntingasölu á skuldabréfum. Hann segir að von sé á yfirlýsingum frá fjármálaráðuneyti og seðlabanka innan tíðar. Hann bendir á að frumvarpið sé ekki nýtt af nálinni, heldur hafi verið lagt fram í mars í fyrra og því sé ekkert í því sem eigi að koma mönnum á óvart.

Þegar frumvarpið er lesið í heild sinni felur það ekki beinlínis í sér umrætt bann, heldur er Seðlabankanum falið vald til að setja reglur um það í hvaða skuldabréfum útlendingar mega fjárfesta. Annað atriði sem gæti útskýrt þá örvæntingu sem skapast hefur á skuldabréfamarkaði í dag er sú umræða sem verið hefur undanfarna mánuði um að taka eigi  harðar á erlendum krónueigendum. Líklega hafa einhverjir skoðað frumvarpið í ljósi þeirrar umræðu. Vissulega getur Seðlabankinn sett reglur sem verða á þann veg að túlka megi þær sem hreðjatök á erlendum krónueigendum, en fyrr en reglurnar líta dagsins ljós er ekkert hægt að segja til um það.