„Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að styðja Seðlabankann í að sinna hlutverki sínu og árétta það hlutverk bankans að vinna að fjármálastöðugleika,“ segir Bjarni Benediktsson um frumvarp til breytingu laga um Seðlabanka Íslands sem í dag er til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Með frumvarpinu er skerpt á heimildum Seðlabanka Íslands til að setja lánastofnunum reglur um laust fé og lágmark stöðugrar fjármögnunar, hvort sem það er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli. Með frumvarpinu vill Bjarni styðja við losun fjármagnshafta.

Bjarni mælti fyrir frumvarpinu á þingi í gær og virðist samstaða vera meðal stjórnar og stjórnarandstöðu um það. „Við ræðum þetta í miklu bróðerni,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon í umræðunum. „Ég tel að þetta frumvarp sé eðlilegt framhald af ýmsu sem gert hefur verið undanfarin ár á þessu sviði.“