Stýrivextir haldast óbreyttir í 4,5% en mikil óvissa er framundan á vinnumarkaði. Ljóst er að það eru erfiðar viðræður framundan sem geta haft áhrif á verðstöðugleika.

Jón Bjarki Bentsson, hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að í ljósi nýjustu tíðinda af yfirvofandi verkföllum og þeim harða tón sem sleginn hefur verið af ýmsum í verkalýðsforystunni séu töluverðar líkur á því að umsamdar launahækkanir muni verða meiri en samrýmist verðbólgumarkmiðinu.

„Seðlabankinn mun þá í kjölfarið bregðast við með hækkun stýrivaxta," segir hann. „Það gæti hins vegar dregist fram eftir vori að fá niðurstöðu í kjarasamninga. Eins gæti niðurstaða þeirra orðið mismunandi eftir viðsemjendum, þar sem launþegahreyfingar á almennum markaði fara ekki fram sameiginlega með kjarasamninga að þessu sinni, öfugt við kjarasamningana 2011 og 2014. Rykið sest því hugsanlega ekki eftir kjarasamningslotuna nú, hvað verðbólguáhrif varðar, fyrr en talsvert er liðið á árið.

Miðað við þá áherslu sem er á niðurstöðu kjarasamninga í síðustu yfirlýsingum peningastefnunefndar teljum við mestar líkur á því að vextir verði óbreyttir þar til niðurstaðan liggur fyrir. Við spáum raunar óbreyttum stýrivöxtum út árið, en sú spá er háð því að kjarasamningum verði landað með launahækkunum sem samrýmast í stórum dráttum verðbólgumarkmiðinu. Það felur að mati okkar í sér í mesta lagi 4-5% samningsbundna hækkun launa að jafnaði.“

Útlitið er ekki gott

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að því miður megi segja að efnahagslegum stöðugleika stafi ógn af komandi kjarasamningum.

„Útlitið er ekki gott, það er talsverð óvissa framundan og óvíst hvað verður," segir hún. „Ég myndi ætla að miðað við þá hörku sem nú er komin í viðræður þá aukast líkurnar á því að niðurstaðan muni ekki vera í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans og gæti því raskað þeim verðstöðugleika sem við búum við um þessar mundir. Ég tel ekki líklegt að stýrivextir breytist mikið á meðan við höfum þessa óvissu hangandi yfir okkur. Við stöndum á eins konar krossgötum og peningastefnunefnd vill sjá hvaða leið verður fyrir valinu.

Við vitum hvað gerist ef verðbólgan helst undir markmiði og niðurstaða kjarasamninga verður í samræmi við verðbólgumarkmið, þá lækka vextir eins og stendur í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Verði hins vegar niðurstaðan önnur þá munu vextir hækka. Seðlabankinn hefur sýnt í verki að honum er alvara með að viðhalda verðstöðugleika. Ég óttast hins vegar afleiðingar þess fyrir íslenskt efnahagslíf ef ekki skapast svigrúm til að lækka raunvexti í landinu. Verðbólga undir einu prósentustigi gefur klárlega tilefni til vaxtalækkunar en óvissa á vinnumarkaði kemur í veg fyrir það."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .