„Seðlabankinn hnusar öll varnaðarorð og æðir áfram þvert gegn þeirri lögfræðilegu ráðgjöf sem ákæruvaldið veitir bankanum í málinu. Í bréfaskriftum frá bankanum er svo talað um fælingarmátt.  Að stjórnvald sé að beita ákæru- og refsiheimildum sínum til að skapa fælingarmátt er auðvitað bara fjarstæðukennt.”

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í morgun. Þorsteinn var þar ásamt Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að ræða mál Seðlabankans og Samherja, en þrátt fyrir að vera andstæðingar á þingi þá voru þeir sammála um að Seðlabankinn hafi farið offari í aðgerðum sínum gegn Samherja.

„Þessar aðgerðir voru þær umfangsmestu sem átt hafa sér stað gegn einu fyrirtæki hér á landi,“ sagði Óli Björn. „Þær höfðu gríðarleg áhrif á starfsmenn fyrirtækisins sem höfðu ekkert unnið sér til saka nema þá að vinna yfir Samherja. Fólk varð fyrir áfalli og sumir þannig að það hefur átt erfitt með að ná sér.

Þetta segir mér að þegar stjórnvald gengur fram af hörku gegn fyrirtæki, þá verði að gæta hófs og sína virðingu. Það má gleyma því að fyrirtæki er í raun og veru bara fólkið sem hjá fyrirtækinu vinna. Menn leyfa sér að tala um sum fyrirtæki af fyrirlitningu og fara með stóryrði gagnvart þeim, en menn verða að hafa í huga að fyrirtækið er fólkið sem hjá fyrirtækinu vinna. Tíminn líður og því lengra sem frá dregur verður ljósara að það var ekkert athugavert og hvað þá ólöglegt, í gangi hjá viðkomandi félagi og ekkert tilefni fyrir þessar aðgerðir. Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna var farið af stað.

Þá er mjög merkilegt að þegar kemur að þessu gjaldeyriseftirliti Seðlabankans þá kemur fram í svari forsætisráðherra frá því í janúar síðastliðnum að bankinn lagði á þessum árum 2012-2016 stjórnvaldssektir á fyrirtæki upp á 115 milljónir króna.  Hæstiréttur gerði svo síðar ríkisvaldinu að endurgreiða þá upphæð nær alla eða 99% aftur til fyrirtækjanna. Og þetta átti alls ekki eingöngu við Samherja heldur fjölmörg fyrirtæki í alskyns rekstri.

Þetta er augljóslega til marks um þær miklu brotalamir sem voru í þessu eftirliti á þessum tíma,“ sagði Óli Björn enn fremur.

„Þessi mál eru Seðlabankanum til háðungar,“ sagði Þorstein Víglundsson.  „Ekki eingöngu það sem við kemur Samherja heldur öll þessi mál sem tengjast gjaldeyriseftirlitinu almennt. Þetta sýnir okkur einfaldlega að við viljum aldrei koma okkur aftur í þessa stöðu að vera reka svona haftabúskap. En í raun erum við enn þá í þessari stöðu því Seðlabankinn hefur enn þá heimildir til þess að reisa hér ýmis höft á fjármagnsflæði og sinna eftirliti með því.

Við skulum bara vona að bankinn hafi dregið einhvern lærdóm af þessu máli. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar farið er gegn fyrirtæki með jafn tilhæfulausum hætti eins og þarna virðist hafa átt sér stað.“