Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, segir mikilvægustu spurninguna í öllu efnahagslífi heimsins í dag vera hvort verðbólgan sé tímabundin eða komin til að vera og hvort seðlabankar heimsins hafi gert reginmistök síðastliðin tvö ár.

Sjálfur telur hann líklegra að verðbólgan verði langvinn, sem þýði að laun muni hækka sem leiði til hærra verðlags. Hann er þeirrar skðuna að núverandi verðbólga orsakist af mistökum seðlabanka heimsins í kórónuveirufaraldrinum.

„Seðlabankar alls staðar í heiminum misskildu eðli þeirrar krísu og brugðust við henni líkt og fjármálakrísan frá árinu 2008 væri að endurtaka sig. Krísan árið 2020 var ekki lausafjárkrísa, en af því að seðlabankar heimsins lækkuðu vexti og prentuðu peninga í mjög miklu magni, þá bjuggu þeir til þennan þrýsting á verðlagið sem er núna að koma út í verðbólgunni," segir Jón. Þá sagði hann það vera mjög erfitt fyrir seðlabanka að hætta að prenta peninga og hækka vexti nú þegar kerfið væri orðið háð ódýru fjármagni, án þess að skaða hagkerfin. Þetta væri algjörlega heimatilbúið vandamál.

Gerist ekkert í einangrun

Rétt viðbrögð við Covid-krísunni hefðu verið að nota ríkisfjármálin til að hjálpa fólki í erfiðleikum en seðlabankar heimsins hafi átt að sitja hjá. Ef krísan er ekki lausafjárkrísa þurfi ekki að búa til lausafé, en sé það gert leiði það til verðbólgu.

„Ríkisfjármál á Íslandi standa mjög vel - betur en í mörgum öðrum löndum. Ætli ríkið sér að styðja við fyrirtæki eða einstaklinga með fjárframlögum getur það fjármagnað það á þrennan hátt; með skattlagningu - sem hefði ekki verið skynsamlegt að gera í miðri efnahagskreppu, með skuldabréfaútgáfu eða með því að seðlabankinn prenti peninga og kaupi ríkisskuldabréf - fjármagni þannig ríkissjóð með því að auka peningamagn í umferð.

Mörg lönd völdu síðustu leiðina. Þá var hugmyndin sú að örva hagkerfið bæði með því að ríkið myndi auka ríkisútgjöld og auka peningamagn í umferð," segir Jón en hann telur síðustu leiðina hafa verið mjög varhugaverða undir þessum kringumstæðum og helstu orsök verðbólgunnar í dag. Að því marki sem nauðsynlegt hefði verið fyrir ríki að aðstoða samfélagið í faraldrinum árið 2020 telur Jón að eðlilegast hefði verið að fjármagna þá aðstoð með aukinni skuldsetningu.

Jón segir fjölda seðlabanka, meðal annars Bandaríkjanna, Bretlands og Evrópu, hafa veðjað á að verðbólgan yrði tímabundin. Það hafi hins vegar verið auðveldara fyrir bandaríska seðlabankann að draga þá ályktun til baka vegna þess að bandaríska hagkerfið sé ekki jafn háð vöxtunum líkt og fyrirtæki í Evrópu séu.

„Fari vextir að hækka munu lönd eins og Spánn, Ítalía, Grikkland og Frakkland lenda í mjög miklum vandræðum því það verður mun dýrara fyrir þau að endurfjármagna sig," segir Jón. Hann nefnir að þegar verðbólgan sé há, þá sé viðbúið að vextirnir hækki og því megi búast við verðhruni á til dæmis fasteigna- og skuldabréfamörkuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .