Seðlabankar heimsins hafa á síðustu vikum tilkynnt um auknar innspýtingar í efnahagskerfi lands síns og minnkandi peningalegt aðhald. Aðgerðir þeirra leiða til dómínó-áhrifa um allan heim, þar sem stjórnvöld víðs vegar um heim þurfa að viðhalda lágu vaxtastigi til þess að bregðast við aðgerðum annarra seðlabanka.

Wall Street Journal fjallar um þróunina í dag. Síðasti seðlabanki til þess að tilkynna um aðgerðir í þágu efnahagsins var Seðlabanki Japans. Með því að draga úr peningalegu aðhaldi fylgdi bankinn eftir tveimur stærstu seðlabönkum heims, Seðlabanka Bandaríkjanna og Seðlabanka Evrópu. Fjárfestar búast við að Englandsbanki muni á næstunni tilkynna um svipaðar aðgerðir.

Í umfjöllun WSJ segir að fjárfestar leiti í auknum mæli til annarra landa en á evrusvæðinu, í Bandaríkjunum eða í Japan og fjárfesti í ríkjum þar sem stýrivextir eru hærri. Þróunin hefur kallað á viðbrögð þeirra ríkja, eins og Brasilíu og Tyrklands, til þess að koma í veg fyrir óhóflegt flæði með því að halda stýrivöxtum lágum. Ríkin vilja koma í veg fyrir að aukið innflæði fjármagns valdi óhóflegri styrkingu og dragi þannig úr virði útflutnings ríkisins.