Seðlabankar heimsins hafa sankað að sér miklum byrðum af gulli upp á síðkastið. Þeir eiga nú 157,5 tonn af gulli, sem er 137,9% meira en á sama tíma í fyrra. Innkaup seðlabankannna hefur haldið uppi gullverði á heimsmörkuðum.

Norski miðillinn E24 segir að nokkru áður en fjármálakreppan skall á af fullum þunga árið 2008 hafi helstu seðlabankar heimsins selt úr gullforða sínum. Þeir hafi tekið upp pyngjuna á ný fyrir þremur árum og tekið að byggja forðann upp á nýjan leik. Stjórnendur rússneska seðlabankans fara þar fremstir í flokki.

Norski miðillinn segir öðru máli gegna um norska seðlabankann. E24 segir hann hafa selt gullforða sinn árið 2004 og eigi hann nú aðeins sjö gullstangir eftir sem notaðar eru til sýningarhalds og 3,5 tonn af gullpeningum sem stjórnvöld nýttu í seinni heimsstyrjöldinni.

Hér er listi yfir þá seðlabanka heimsins sem sitja á stærstu gullforðunum og þyngd hans:

  1. Bandaríkin - 8.133,5 tonn
  2. Þýskaland - 3.395,5 tonn
  3. Ítalía - 2.451,8 tonn
  4. Frakkland - 2.435,4 tonn
  5. Kína - 1.054,1 tonn
  6. Sviss - 1.040,1 tonn
  7. Rússland - 936,7 tonn
  8. Japan - 765,2 tonn
  9. Holland - 612,5 tonn
  10. Indland - 557,7 tonn