Fjármálakreppan kenndi mönnum að seðlabankar eiga að hafa tvö markmið; að halda verðbólgu innan marka og styðja við fjármálageirann. Þetta segir Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, í erindi sem hann hélt í Boston í dag. Þar lofaði hann aðgerðir seðlabankans vestra.

Bandaríski seðlabankinn lækkaði stýrivexti hratt þegar kreppan tók að herða tökin á haustdögum 2008 og færði úr um fimm prósentum og niður að núlli á skömmum tíma Á sama tíma setti bankinn prentvélarnar í gang til að kaupa ríkisskuldabréf og veðlán banka og fjármálafyrirtækja í vanda.

Gagnrýnendur seðlabankans segja aðgerðirnar hafa keyrt upp verðbólgu og haldið stýrivöxtum lágum of lengi.

Bernanke sagði þvert á móti aðgerðirnar til þess fallnar að koma einkaneyslu í gang á nýjan leik og hvatti þingheim til að styðja áætlanir sem koma eigi efnahagslífinu fyrir horn.

AP-fréttastofan segir í umfjöllun sinni um erindi Bernankes að fram komi í minnispunktum frá síðasta fundi bankastjórnar bandaríska seðlabankans efasemdir um árangur aðgerða bankans. Atvinnuleysi sé enn í kringum níu prósent og virðist lítið hafa dregið úr því frá upphafi kreppunnar árið 2008.