Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, stærsta verkalýðsfélags landsins, gagnrýnir harðlega í færslu á Facebook ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að laun verkamanna í Þýskalandi ættu að vera viðmið launakjara hér á landi. Ásgeir lét ummælin falla á peningamálafundi Viðskiptaráðs í síðustu viku en í færslu Viðars er vísað í frétt Viðskiptablaðsins um erindi seðlabankastjórans.

Viðar gerir tvær athugasemdir við ummæli Ásgeirs. „Í fyrsta lagi sýnir hann hér, á fundi með vinum sínum í Viðskiptaráði, að hann ætlar sér að stjórna launakjörum Íslendinga. Í hvers umboði? Hver kaus hann til þess? Enginn veit! En ánægja auðstéttarinnar er eflaust mikil,“  skrifar Viðar sem útskýrir ánægju auðstéttarinnar í næstu athugasemd.

„Í öðru lagi sýnir Ásgeir Jónsson að hugmyndir hans um launakjör almennings eru hörmulegt nýfrjálshyggju-afturhald, upp úr forskrift Þýskalands, sem hefur á síðustu áratugum holað vinnumarkaðinn að innan með árásum á láglaunafólk sbr “Hartz IV” vinnumarkaðsstefnuna. Sú stefna gerði Þýskaland leiðandi í innleiðingu óöryggis á vinnumarkaði og sköpun nýrrar stéttar lausavinnufólks á smánarlaunum (“precariat”), sem aftur hefur haldið launum allra niðri, svo mjög að jafnvel bjúrókratar ESB hafa lýst áhyggjum,“ skrifar Viðar ennfremur sem bætir við í niðurlagi færslunnar:

„En hvað sem öðru líður er deginum ljósara að íslenska auðstéttin hefur eignast öflugan bandamann í nýjum selabankastjóra.“

Nokkur ummæli er við færslu Viðars meðal annars leggur Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, orð í belg. „Hárrétt Viðar. Þetta er allt saman langt út fyrir mörkin! Þjóðverjar héldu launum óbreyttum meira og minna í tíu ár þegar hagvöxtur var ágætur - að bandarískri fyrirmynd. Að setja það fram sem fyrirmynd fyrir Ísland er ígildi þess að kasta stríðshanska að launafólki. Leiðinlegt að sjá seðlabankastjóra taka svona afstöðu í þágu atvinnurekenda og fjárfesta. Raunar óþolandi,“ skrifar Stefán Ólafsson.