*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 27. mars 2017 15:17

„Seðlabankastjóri fer enn með rangt mál“

Forsvarsmenn Samherja segja Seðlabankastjóra reyna að varpa ábyrgð á aðgerðum bankans yfir á aðra, en á annað hundrað hafi verið ákærðir frá setningu gjaldeyrishafta.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Forstjóri og útgerðarstjóri Samherja, þeir Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján V. Vilhelmsson, segja Seðlabankastjóra enn fara með rangt mál um fyrirtækið í pistli sem þeir birta á heimasíðu félagsins í tilefni þess að í dag eru fimm ár síðan húsleit var gerð í höfuðstöðvum þess.

Er þar vísað í ummæli Seðlabankastjóra í sjónvarpsþættinum Eyjunni frá 23. mars síðastliðnum þar sem hann sagði það ekki ákvörðun bankans heldur annarra hvort mál færu alla leið.

Fer gegn ofanígjöf bankaráðs

Segja þeir Seðlabankastjóra þar vera að varpa ábyrgð á því sem miður hafi farið yfir á aðra, sem og að með því að tjá sig opinberlega um einstök mál sé hann að fara þvert gegn vilja bankaráðs Seðlabankans sem hafi sett alvarlega ofan í hann fyrir slíkt.

Jafnframt segja þeir félagið ekki hafa óskað eftir undanþágum frá gjaldeyrishöftum fyrr en í lok árs 2016 vegna erlendrar lántöku, en skilja hafi mátt Seðlabankastjóra sem svo að Samherji væri fyrirferðamikill í undanþágubeiðnum.

Stimpill að hafa sloppið vegna klúðurs Seðlabankans

„Til allrar hamingju er húsleitin og mál Samherja einstakt,“ segir meðal annars í greininni.

„Hins vegar kærði Seðlabankinn á annað hundrað einstaklinga og fyrirtæki til lögreglu. Eftirtekjan af því er engin fyrir bankann en eftir sitja viðkomandi aðilar með þann stimpil frá seðlabankastjóra að hafa sloppið vegna klúðurs annarra en Seðlabankans.“

Alltaf ákvörðun Seðlabankastjóra

Segir í greininni að ákvarðanir um hvort farið sé í húsleit, blaðamannafundur haldinn, mál kærð til lögreglu eða með hvaða hætti þeim sé lokið af hálfu bankans sé séu alltaf ákvarðanir Seðlabankastjóra.

„Það er ekki lagaleg skylda embættismanna, eins og seðlabankastjóra hefur verið títtrætt um, að hafa fólk fyrir rangri sök. Það er brot í starfi,“ segir þar meðal annars.

Lagaklúðrið er Seðlabankans

„Seðlabankastjóri hefur oftsinnis hundsað niðurstöður og rökstuðning sérstaks saksóknara í málum sem bankinn hefur kært og ýmist borið því við að málin hafi verið of flókin fyrir embættið eða um sé að kenna lagaklúðri sem rekja megi til annarra en bankans.

Í umræddu viðtali 23. mars sl. staðfesti seðlabankastjóri hins vegar að eitt af meginhlutverkum bankans sé smíði lagafrumvarpa.

Verður það ekki skilið með öðrum hætti en að Seðlabankinn hafi átt virka aðkomu að því lagaklúðri sem seðlabankastjóri reynir ítrekað að kenna öðrum um.

Forðast hefði mátt tjóni ef hefði virt leiðbeiningar

Ef Seðlabankinn hefði virt niðurstöður og leiðbeiningar sérstaks saksóknara eða þær fjölmörgu ábendingar sem bankanum hafa borist í gegnum árin hefði vafalaust verið hægt að forða miklu tjóni og miska fjölmargra einstaklinga og lögaðila.

Hafa skal í huga að bankinn hefur kært á annað hundrað einstaklinga og lögaðila frá setningu gjaldeyrishafta.“