„Þetta var óvissuþáttur sem hékk yfir okkur. Þótt hann sé nú horfinn þá er ekki víst hve stór hin jákvæðu áhrif verða,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um hugsanleg áhrif af niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu í morgun.

Már segir í samtali við vb.is áhrif Icesave-málsins hafa verið meiri í upphafi þess en þau dvínað í tímans rás og fjárhagsleg byrði málsins horfin af ríkissjóði.

„Þetta gæti hugsanlega haft áhrif á fjármagnsinnstreymi og kannski utanaðkomandi fjárfestingarvilja. Allt slíkt hjálpar til þess að losa um fjármagnshöftin. Því meira sem innstreymið er og fjárfesting eykst í gjaldeyrissakapandi verkefnum þá verður auðveldara að losa um höftin,“ segir hann. Már bendir þó á að á móti hafi staðan á alþjóðlegum vettvangi, ekki síst í Evrópu, reynst verri en áður var spáð og geti það dregið úr jákvæðum áhrifum af Icesave-dóminum.

„En dómurinn hefur jákvæð áhrif. Það er aðeins spursmál hversu stór þau verða,“ segir Már.