Fjármálainnviðir Íslands stóðust álagið í fjármálakreppunni, þar með er talið greiðslumiðlunarkerfið. Að vísu frusu sumir markaðir, t.d. peningamarkaðir og gjaldeyrisskiptamarkaðir, en það var fremur vegna þess að traust á fjármálastofnunum brast en að hinir eiginlegir innviðir hafi brostið, skrifar Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Fram kemur í formála sem Már skrifar í ritinu Fjármálainnviðum, nýju riti Seðlabankans um fjármálakerfið, að fjármálainnviðir eigi það sameiginlegt með öðrum innviðum eins og t.d. pípulögnum, raforkukerfum og símkerfum að það er ekki á almanna vitorði hvernig þeir virka í smáatriðum. Allir finni svo fyrir því þegar þeir bila.

Inngrip breska ríkisins skaðaði fjármálakerfið

Þá skrifar Már að veikleikar sem fyrri áföll höfðu gefið vísbendingar um hafi komið skýrt fram í fjármálaáfallinu, t.d. hvað snerti uppgjör ólokinna gjaldeyrisviðskipta þegar banki fellur. Í móti hafi fjármálainnviðirnir virkað.

Hvað greiðslumiðlunina snertir skrifar Már:

„Stóra undantekning var greiðslumiðlun til og frá landinu. Þar skipti inngrip breska ríkisins fremur máli en að hinir eiginlegu innviðir hafi gefið eftir. Þá urðu vissir hnökrar varðandi uppgjör greiðslukortaviðskipta sem tengdust því að hluti innlendra kortaviðskipta var gerður upp erlendis. Seðlabankinn er nú miðlægur uppgjörsaðili kreditkortaviðskipta og á það að draga verulega úr líkum á truflunum á þeim vettvangi.“