Valeriya Gontareva, sem hefur verið seðlabankastjóri Úkraínu síðastliðin þrjú ár hefur sagt upp störfum. Hún hefur þurft að sitja undir talsverðum þrýstingi frá fjársterkum aðilum í kjölfar þess að hún tók þá ákvörðun að loka bönkum í Úkraínu sem stunduðu ólögmæta starfsemi. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Gontareva naut talsverðra vinsælda í Vesturlöndum vegna tilrauna hennar til að nútímavæða bankakerfið í Úkraínu, en þurfti að sæta gagnrýni heima fyrir og sumir sökuðu hana jafnvel um að vera „handbendi Rússa“.

Seðlabankastjórinn fyrrverandi innleiddi aðgerðaáætlun sem kom frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og snerist um að leyfa úkraínska gjaldmiðlinum, hryvnia, að finna jafnvægi. Talið er að aðgerðin hafi komið í veg fyrir að seðlabankinn yrði uppiskroppa með peninga. Þó hefur þetta reynst umdeild aðgerð þar sem að hún hafði í för með sér mikla verðbólgu og hafði neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu almennings í landinu.

Óvinir Gontareva hafa farið fram á handtöku seðlabankastjórans. Hún segir þó sjálf að hún hafi sagt upp störfum sjálfviljug.